Hleð......

Afdrifaríkar ákvarðanir um lífeyriskerfið verða að vera í sátt

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson,…

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Nokkur styr hefur staðið um forsendur og framtíð íslenska lífeyriskerfisins undanfarið. Deilt hefur verið um samtryggingu og séreign og nú eru komnar fram tillögur um hækkun lífeyristökualdurs. Það er launafólk í landinu sem á lífeyriskerfið og því óásættanlegt hve mikið hefur skort á samráð við samtök launafólks þega rætt hefur verið um breytingar á kerfinu. Áframhaldandi skortur á samráði og bútasaumsaðferð í ákvarðanatöku mun reynast almenningi dýrkeyptur.


Meira

Um 85 prósent vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk

 

Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.
 Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að ríki og sveitarfélög greiði því starfsfólki sem hefur verið í framlínunni í baráttunni gegn heimsfaraldrinum aukagreiðslur fyrir það álag sem það hefur verið undir. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem könnunarfyrirtækið Prósent gerði fyrir BSRB.

Um 85 prósent landsmanna vilja að framlínufólkið, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningamenn og aðrir, fái greitt aukalega fyrir það álag sem fylgt hefur faraldrinum. Um níu prósent sögðust hvorki fylgjandi né andvíg slíkum aukagreiðslum og aðeins um sex prósent voru andvíg því að greiða framlínufólkinu álagsgreiðslur.

„Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðna átján mánuði og enn sjáum við ekki fyrir endann á þessum faraldri. Við getum ekki gert þá kröfu á þennan stóra hóp fólks að þau leggi endalaust á sig fyrir okkur hin án þess að fá greiðslur í samræmi við þetta mikla álag,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá íslensku þjóðina þjappa sér með þessum hætti að baki þeim sem staðið hafa vaktina í heimsfaraldrinum. Þjóðin er með þessu að segja að þakklætið eitt og sér dugi ekki til heldur þurfi að umbuna framlínufólkinu okkar með sérstökum álagsgreiðslum,“ segir Sonja.

Um 85 prósent vilja meira fé til Landspítalans

Afgerandi meirihluti vill auka fjárframlög til reksturs Landspítalans.
 

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, um 85 prósent, vilja að stjórnvöld verji meira fé til Landspítalans en gert er í dag. Þetta sýnir könnun Prósents sem Fréttablaðið birtir í dag.

Alls sögðust 57 prósent þátttakenda í könnuninni vilja að miklu meira fé verði varið til reksturs spítalans en 28 vilja að aðeins meira fé sé varið í reksturinn. Um 13 prósent vilja ekki breytingar og samtals um tvö prósent vilja að stjórnvöld verji aðeins eða miklu minna fé í reksturinn.

„Til þess að spítalinn geti gegnt sínum verkefnum, þá þarf meira fé,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landsspítalans í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að niðurstöðurnar séu traustsyfirlýsing frá almenningi við starfsfólk Landspítalans. „Þarna kemur fram skýr vilji þjóðarinnar. Við finnum það nú og til framtíðar að fjármagna þurfi verkefnið með fullnægjandi hætti.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þessar niðurstöður sýna stuðning landsmanna við opinbert heilbrigðiskerfi, í viðtali við blaðið. „Þetta endurspeglar það sem að áður hefur komið fram. Það er eindreginn stuðningur landsmanna við opinbert heilbrigðiskerfi og sterkan Landspítala. Þetta er eindregið ákall um að haldið verði áfram á þeirri braut að byggja upp þessa mikilvægu þjónustu.“


Meira

Þjóðin kýs almannaþjónustu!

Almenningur er vel meðvitaður um mikilvægi almannaþjónustunnar.
Almenningur er vel meðvitaður um mikilvægi almannaþjónustunnar.

Starfsfólk almannaþjónustunnar er í lykilhlutverki þegar kemur að því að halda samfélaginu gangandi enda sýnir ný könnun sem unnin var fyrir BSRB að almannaþjónustan er mikilvægust fyrir hagsæld þjóðarinnar að mati landsmanna.

Mikilvægi opinberra starfa hefur aldrei verið meira. Það hefur komið berlega í ljós í heimsfaraldrinum sem hefur gengið yfir landið í bylgjum síðasta eitt og hálfa árið hversu mikilvægt það er að starfsfólk almannaþjónustunnar sinni sínum störfum. Það að einn starfsmaður sinni hópi aldraðra gerir aðstandendum þeirra kleift að sinna sínum störfum, sem aftur hefur keðjuverkandi áhrif út í allt samfélagið.

Almenningur er vel meðvitaður um mikilvægi almannaþjónustunnar. Þannig sýnir nýleg könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson prófessor að í huga almennings er það almannaþjónustan sem er mikilvægust fyrir hagsæld þjóðarinnar. Flestir nefna heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, en á hæla þess eru það samgöngur og löggæsla og dómstólar. Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi er einnig ofarlega á blaði, sem og félagsþjónustan. Það þarf að leita niður í sjöunda sætið á listanum til að finna sjávarútveg, verslun er í því áttunda og ferðaþjónustan í ellefta sæti yfir þau atriði sem skipta máli fyrir hagsæld þjóðarinnar. Nákvæm hlutföll má sjá í meðfylgjandi mynd.


Meira

Aðalfundur Starfsmannafélags Dala og Snæfellsnessýslu (SDS) 2021

Verður haldinn fimmtudaginn 2.september kl.17:15 -18:30 í fjarfundi vegna aðstæðna.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta, þó svo fundurinn verði með rafrænu sniði (Zoom).  Skráning er nauðsynleg til að geta fylgst með fundi og greitt atkvæði.  Senda þarf tölvupóst á dalaogsnae@gmail.com , tilgreina fullt nafn, kennitölu og netfangið sem nota skal á fjarfundinum. Eins væri gott að láta farsímanúmerið fylgja með. Þið fáið svo sendan í tölvupósti, hlekk inná fundinn samdægurs. Þegar á fundinn er komið fáið þið nákvæmar leiðbeiningar um atkvæðagreiðsluna sem verður mjög aðgengileg og ekkert til að halda ykkur frá þátttöku. Skráningu lýkur deginum áður, 1.september.

Rúsínan í pylsuendanum!

Í lok fundar verður dregið í happdrætti.

Vinningarnir verða þrjú gjafakort frá 66°Norður. Hvert kort að andvirði 40.000 kr.

Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:

 • -Tilnefning fundarstjóra og ritara eftir tilnefningu stjórnar.
 • -Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
 • -Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
 • -Skýrsla orlofsnefndar
 • -Skýrsla starfsmenntunarsjóðs
 • -Skýrsla átaks og vinnudeilusjóðs
 • -Kosning fulltrúa á þing BSRB 
 • -Kynning á sameiningarviðræðum. Drög að samkomulagi um sameiningu SDS og Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu lagt fram.
 • -Umboð aðalfundar lagt fram til samþykktar á samkomulagi um sameiningu félaganna sem stefnt er að á framhalds-aðalfundi SDS í október 2021
 • -Kosning 2 meðstjórnenda og 1 varamanns í stjórn SDS til tveggja ára.
 • -Kosning formanns
 • -Önnur mál.
Upp