Hleð......

Breytingar á A deild 1. júní

Breyting verður á réttindaöflun sjóðfélaga í A deild frá og með 1. júní næst komandi. Breytingarnar hafa mismunandi áhrif á sjóðfélaga og eru þær gerðar vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hefur sú lagabreyting áhrif á A deild Brúar lífeyrissjóðs. Eftirfarandi breytingar koma til framkvæmda 1. júní 2017:

Réttindaávinnsla A deildar er breytt úr jafnri réttindaávinnslu yfir í aldurstengda réttindaávinnslu.

Lífeyrisaldur samræmdur við almennan vinnumarkað og verður 67 ár.

A deild er viðhaldið en þeir sem greiða áfram iðgjald til sjóðsins fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á réttindum í jafnri og aldurstengdri ávinnslu er mætt með sérstöku framlagi, lífeyrisauka, sem launagreiðendur greiða inn til sjóðsins.

Auk framlags í lífeyrisaukasjóð greiða launagreiðendur framlag í jafnvægissjóð sem er nýttur til að koma áfallinni stöðu A deildar í jafnvægi þann 31.maí 2017

Nýir sjóðfélagar frá 1. júní 2017 fara í aldurstengda réttindaávinnslu.

Launagreiðendur greiða einnig til sjóðsins framlag í varúðarsjóð.

Mótframlag launagreiðanda lækkar úr 12% í 11,5% þann 1. júní 2017.

Réttindi þeirra sem byrjaðir eru á lífeyri þann 31. maí 2017 og þeirra sem verða 60 ára á sama tíma verða ekki skert eða aukin þó svo til skerðingar eða réttindaaukningar komi hjá öðrum sjóðfélögum. Launagreiðendur gera sérstaklega upp fjárhagsleg áhrif vegna þessara sjóðfélaga við sjóðinn.

Áhrif breytinganna á sjóðfélaga sem áttu aðild fyrir 1. júní

Réttindi þeirra sjóðfélaga sem áttu aðild að A deild fyrir breytingarnar verða ekki skert við gildistöku laganna vegna framlags launagreiðenda til sjóðsins.

Sjóðfélagar sem greiða áfram iðgjald í A deild fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á jafnri ávinnslu og aldurstengdri ávinnslu framtíðarréttinda er mætt með lífeyrisauka sem launagreiðendur greiða inn til sjóðsins.

Réttindi sjóðfélaga verða aftur á móti framvegis bundin tryggingafræðilegri stöðu og geta lækkað eða hækkað eftir afkomu sjóðsins. Þetta á bæði við um áunnin réttindi fyrir 1. júní næst komandi og framtíðarréttindi sjóðfélaga.

Nýir sjóðfélgar eftir 1. júní 2017

Sjóðfélagar sem byrja að greiða til sjóðsins eftir 1. júní 2017 ávinna sér réttindi sem eru  aldurstengd. Því yngri sem sjóðfélagi  byrjar að greiða til sjóðsins  því verðmætari verða réttindin hans vegna lengri ávöxtunartíma.

Réttindin eru  bundin tryggingafræðilegri afkomu sjóðsins og geta hækkað eða lækkað eftir afkomu hans.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku verður 67 ár en lífeyristaka getur hafist milli 60-70 ára.

Engin breyting á réttindum sjóðfélaga 60 ára og eldri fyrir 1. júní

Breytingin á A deild sjóðsins hefur engin áhrif á sjóðfélaga sem voru orðnir 60 ára fyrir 1. júní 2017. 

Úr hverju er verið að breyta?

Lífeyrisréttindin í A deild voru með jafnri ávinnslu óháð aldri. Sjóðfélagi ávann sér því lífeyrisrétt sem nam 1,9% af launum.  Viðmiðunaraldur lífeyristöku var 65 ár en gat hafist á milli 60-70 ára. 

Spurt & svarað um breytingar á A deild 1. júní

Upp