Hleð......

Fjögur stór sveitarfélög stytta vinnuvikuna

 
Vinnan hafin á Akranesi

Stofnaður hefur verið starfshópur hjá Akraneskaupstað sem hefur það verkefni að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar og án þess að þjónusta við bæjarbúa skerðist. Þá á hópurinn að útfæra mælikvarða til að meta áhrif verkefnisins á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu við bæjarbúa.

Stefnt er að því að tilraunaverkefnið á Akranesi hefjist ekki síðar en í upphafi næsta árs og á starfshópurinn að skila áfangaskýrslu til bæjarráðs um miðjan október.

Stytting vinnuviku í málefnasamningum

Kveðið er á um styttingu vinnuvikunnar í málefnasamningum meirihlutans í að minnsta kosti tveimur sveitarfélögum í kjölfar nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga.

Í málefnasamningi L-listans, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar á Akureyri segir einfaldlega að farið verði í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í sveitarfélaginu, en það er ekki útfært nánar í samningnum.

Í málefnasamningi Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks í Reykjanesbæ er ákveðið að stofnað verði sérstakt framtíðarráð sem fjalla mun um ýmis mikilvæg mál sem meirihlutinn vill koma til framkvæmda. Eitt af því sem ráðið á að fjalla um er útfærsla á sveigjanlegum vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar.

Góður árangur hjá borginni

Reykjavíkurborg hefur leitt vagninn þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar. Tilraunaverkefni BSRB og borgarinnar var fyrsta tilraunaverkefnið þar sem vinnuvika starfsmanna var stytt án þess að laun skertust á móti. Undirbúningur fyrir verkefnið fór af stað árið 2015 og hefur gefið afar góða raun.

Árangurinn af tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hefur verið svo góður að borgarráð ákvað að framlengja tilraunaverkefnið og útvíkka það frá febrúar síðastliðnum þegar öllum vinnustöðum borgarinnar var gefinn kostur á að taka þátt. Í dag tekur um fjórðungur starfsmanna borgarinnar, um 2.200 manns, þátt í tilraunaverkefninu.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar.

Upp