Hleð......

Nýtt yfirlit yfir aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins

 

Stjórnvöld hafa þegar lýst því yfir að grípa eigi til frekari aðgerða vegna gríðarmikilla efnahagslegra afleiðinga faraldursins, eins og stjórnvöld víða um heim. Í þeim aðgerðum mun BSRB eftir sem áður leggja þunga áherslu á að öryggi og heilsa fólks sé tryggð. Það á ekki síst við um þá sem starfa í framlínunni í baráttunni gegn faraldrinum, en einnig heilt yfir í vinnu og einkalífi launafólks.

Þessu til viðbótar leggur BSRB áherslu á að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða til að tryggja afkomu launafólks með jafnrétti að leiðarljósi. Þar telur bandalagið augljóst að stjórnvöld verði að ganga lengra í stuðningi við heimilin en þegar hefur verið gert.

BSRB hefur tekið saman lista yfir helstu áherslur bandalagsins þegar frekari aðgerðir verða undirbúnar. Á þeim lista má meðal annars finna eftirfarandi atriði:

  • Úrræði til að tryggja afkomu foreldra sem geta ekki unnið í fjarvinnu en geta ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs barna sinna.
  • Úrræði til að tryggja afkomu einstaklinga sem eru frá vinnu vegna aukinnar áhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, eða eiga börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eru heima samkvæmt tilmælum læknis.
  • Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.
  • Að allir opinberir aðilar sem veita lán eða innheimta hvers kyns greiðslur komi til móts við einstaklinga með rýmri greiðslufrestum og leiti allra leiða til að koma til móts við þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum með sanngjörnum hætti.
  • Að stjórnvöld auki framlög sín til uppbyggingar almennra íbúða.
  • Að stjórnvöld leggi áherslu á jafna möguleika og jöfn tækifæri kvenna og karla í uppbyggingu vinnumarkaðsaðgerða og sköpun starfa.
  • Að stjórnvöld hraði uppbyggingu á Borgarlínu.
  • Að stjórnvöld auki framlög sín til viðhalds, endurbóta og byggingar húsnæðis heilbrigðisstofnana.
  • Að stjórnvöld leggi áherslu á fjárfestingu í menntun í greinum innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfisins.
  • Að allar aðgerðir stjórnvalda byggi jöfnum höndum á félagslegum stöðuleika sem og efnahagslegum.

 

Smelltu á myndirnar hér að neðan til að skoða samantekt yfir aðgerðir og spurt og svarað um réttindi launafólks.

Upp