Hleð......

Samtölin um styttingu vinnuvikunnar komin á fullt

 

Starfsemin á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga er mjög fjölbreytt og því munu ólíkar leiðir henta mismunandi vinnustöðum. Á einhverjum stöðum er hægt að loka fyrr einn dag í viku án þess að þjónustan skerðist. Á öðrum getur starfsfólk skipst á að fara fyrr eða mæta seinna og á enn öðrum er staðan þannig að útfærslan getur verið mismunandi eftir starfsfólki.

Heimilt verður að stytta vinnuvikuna hjá dagvinnufólki í allt að 36 stundir. Styttingin verður að lágmarki fjórar stundir hjá vaktavinnufólki og allt að átta stundir, niður í 32 tíma vinnuviku, hjá þeim sem ganga þyngstu vaktirnar.

Til að auðvelda starfsfólki jafnt sem stjórnendum að undirbúa styttinguna á sínum vinnustað hefur verið útbúið mikið af kynningarefni sem gott er að skoða. BSRB hefur opnað vefinn styttri.is þar sem hægt er að finna greinargóðar upplýsingar. Þá er hægt að finna kynningarmyndbönd, upptökur af kynningarfundum og fleira hér á vef BSRB. Þá má benda á vefinn betrivinnutimi.is þar sem hægt er að sækja ýmsan fróðleik.

Stytting vinnuvikunnar verður stærsta breytingin á vinnutíma launafólks í nærri hálfa öld, frá því 40 tíma vinnuvikan var tekin upp hér á landi. Tökum öll þátt í því að gera drauminn um styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélag að veruleika.

Upp