Hleð......

Sótt að heilbrigðiskerfi í heimsfaraldri

 

 

Vandamálið er ekki skortur á vilja innan opinbera heilbrigðiskerfisins til að minnka biðlistana og veita framúrskarandi þjónustu heldur viðvarandi niðurskurður og mannekla sem hefur einkennt kerfið undanfarin ár og áratugi. Vandamálið er ekki heldur að heilbrigðiskerfið geti ekki sinnt þeim verkefnum sem við viljum að sé sinnt. Vandinn er sá að við veitum ekki nægilegu fé til þess að sinna þessum verkefnum.

Nú þegar heimsfaraldurinn er á undanhaldi verðum við að grípa tækifærið, hugsa hlutina upp á nýtt og styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Við þurfum sannarlega að leggjast í átak í að ná niður biðlistum. En við verðum líka að huga að heildstæðri stefnumótun, umbótum, nýsköpun og þróun. Við þurfum einnig að leggja miklu meiri áherslu á forvarnir. Það kostar vissulega en það mun skila sér margfalt til baka.

Afstaða landsmanna skýr

Í heimsfaraldrinum sáum við vel hvernig heilbrigðiskerfi virka best. Það voru ekki kerfin með mestu einkavæðinguna. Þau lönd sem komu best út úr faraldrinum voru þau sem höfðu sterkt opinbert heilbrigðiskerfi. Þess vegna er það í besta falli broslegt að nú þegar heilbrigðiskerfið er að skila okkur nær klakklaust í gegnum faraldurinn ómi þær raddir hærra en nokkru sinni fyrr sem kalla eftir einkavæðingu.

Þó okkur sem viljum standa vörð um heilbrigðiskerfið þyki það broslegt að tala fyrir aukinni einkavæðingu á þessum tímapunkti er það auðvitað grafalvarlegt mál og í raun stórhættulegur málflutningur. Ef verkefni heilbrigðiskerfisins verða færð í enn frekara mæli en orðið er í hendur einkaaðila er engin leið að segja hvernig við förum út úr næsta heimsfaraldri, eða þeim þar næsta.

Sem betur fer lætur almenningur ekki blekkjast. BSRB hefur ásamt Rúnari Vilhjálmssyni prófessor staðið fyrir reglulegum rannsóknum þar sem afstaða almennings til heilbrigðiskerfisins er könnuð. Við kynntum nýjustu niðurstöður nú í lok maí. Þar kom fram eindreginn stuðningur almennings við að heilbrigðisþjónusta verði fyrst og fremst á hendi hins opinbera. Aðeins örlítið hlutfall þjóðarinnar vill fórna okkar frábæra heilbrigðiskerfi og treysta fyrst og fremst á einkarekstur.

Vitnað var í orð formanns Læknafélags Reykjavíkur í leiðara Morgunblaðsins í vikunni þar sem hann reyndi að túlka niðurstöður könnunarinnar með öðrum hætti. Leiðarahöfundur valdi að líta ekki til túlkunar Rúnars Vilhjálmssonar á niðurstöðunum, en hann er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og hefur unnið fjöldamargar rannsóknir á heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum og áratugum. En það er kannski ekki hentugt að treysta sérfræðingum þegar þeir segja ekki það sem við viljum heyra.

Könnunin sýndi einnig að afgerandi meirihluti landsmanna, nærri átta af hverjum tíu, vill að meira fé sé varið til heilbrigðismála. Eins og Rúnar benti á í erindi sínu á opnum fundi BSRB eru útgjöldin til heilbrigðismála hér á landi mun lægri en á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandi, skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þessu þurfum við að breyta.

Almannahagsmunir ráði

BSRB hefur í gegnum tíðina staðið vörð um opinbert heilbrigðiskerfi. Það er ekki sérhagsmunabarátta eða „hluti af pólitískri baráttu sumra forystumanna stéttarfélaga“, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist telja. Þessi áhersla bandalagsins er þvert á móti afrakstur stefnumótunar félagsmanna á þingum BSRB sem kjörin forysta bandalagsins fylgir að sjálfsögðu eftir á opinberum vettvangi. Áherslan endurspeglar almannahagsmuni og stuðning við öflugt opinbert heilbrigðiskerfi en ekki fjárhagslega sérhagsmuni fárra.

Heilbrigðismálin eru í kastljósinu vegna heimsfaraldursins og það er ljóst að þau verða eitt af stóru kosningamálunum í haust. Almenningur vill standa vörð um heilbrigðiskerfið okkar og efla það enn frekar í stað þess leyfa þeim sem vilja veg einkareksturs sem mestan að hagnast á því að veita fólki þá grundvallarþjónustu að greina og meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.

Raunverulegur kjarni þessarar umræðu snýst um hvort við sem þjóð getum verið sammála um að hafa jöfnuð að leiðarljósi við uppbyggingu samfélagsins eftir heimsfaraldurinn. Málstaður þeirra sem ekki vilja deila verðmætunum jafnt og ekki vilja setja samfélagið ofar eigin hagsmunum á sér lítinn hljómgrunn meðal almennings. Kjörnir fulltrúar, frambjóðendur í þingkosningunum í haust og einstaka ritstjórar verða að bregðast við kalli tímans.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

 

Upp