Hleð......

Um 85 prósent vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk

 

Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.
 Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að ríki og sveitarfélög greiði því starfsfólki sem hefur verið í framlínunni í baráttunni gegn heimsfaraldrinum aukagreiðslur fyrir það álag sem það hefur verið undir. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem könnunarfyrirtækið Prósent gerði fyrir BSRB.

Um 85 prósent landsmanna vilja að framlínufólkið, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningamenn og aðrir, fái greitt aukalega fyrir það álag sem fylgt hefur faraldrinum. Um níu prósent sögðust hvorki fylgjandi né andvíg slíkum aukagreiðslum og aðeins um sex prósent voru andvíg því að greiða framlínufólkinu álagsgreiðslur.

„Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðna átján mánuði og enn sjáum við ekki fyrir endann á þessum faraldri. Við getum ekki gert þá kröfu á þennan stóra hóp fólks að þau leggi endalaust á sig fyrir okkur hin án þess að fá greiðslur í samræmi við þetta mikla álag,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá íslensku þjóðina þjappa sér með þessum hætti að baki þeim sem staðið hafa vaktina í heimsfaraldrinum. Þjóðin er með þessu að segja að þakklætið eitt og sér dugi ekki til heldur þurfi að umbuna framlínufólkinu okkar með sérstökum álagsgreiðslum,“ segir Sonja.

Upp