Málþingið um kulnun og álag
Nýjar rannsóknir á bata þeirra sem greinst hafa með kulnun sýna að erfitt getur reynst að ná fullum bata og því gríðarlega mikilvægt að huga að forvörnum áður en í óefni er komið. Þetta kom fram í erindi Ingibjargar Jónsdóttur, forstöðumaður Institute of Stress Medicine í Svíþjóð og prófessor við Gautaborgarháskóla, á málþingi BSRB um kulnun og álag í starfi í morgun.
Málþing BSRB um kulnun og álag í starfi var haldið á Reykjavík Natura hótelinu og var afar vel sótt. Um 250 manns komu á málþingið og fræddust um hvernig hægt sé að bregðast við kulnun og öðrum afleiðingum álags í starfi.
Rannsóknirnar sýna að um þriðjungur þeirra sem kominn var með alvarlega kulnun var enn með einkenni eftir sjö ár og hafði ekki náð að snúa aftur til vinnu. „Þetta segir mér að forvarnir eru eini möguleikinn, það er ekkert annað í boði,“ sagði Ingibjörg í erindi sínu.
Hún benti á að ýmsar aðferðir sem hafa gefið góðan árangur í því að koma í veg fyrir að fólk finni einkenni kulnunar, til dæmis hugræn atferlismeðferð, hreyfing og ýmislegt fleira, séu ekki nothæf tæki í að takast á við ástand þeirra sem eru lengst leiddir. Þar þurfi að beita öðrum aðferðum, enda geti alvarleg kulnun haft bein áhrif á heilastarfsemi sjúklinga.
Það er því langsamlega hagkvæmast fyrir bæði einstaklingana og samfélagið að vera með öflugar forvarnir frekar en að reyna að takast á við vandann eftir að fólk hefur þróað með sér sjúkdóma vegna kulnunar.
Meira