Hleð......

Viðræður halda áfram í kapphlaupi við tímann

 

Verkföll munu skella á klukkan 12 á miðnætti náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Verkföll munu skella á klukkan 12 á miðnætti náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Samninganefndir BSRB og aðildarfélaga bandalagsins funduðu með viðsemjendum hjá Ríkissáttasemjara fram yfir miðnætti í gær og fundir hófust að nýju klukkan 10 í morgun. Reynt verður til þrautar að ná samningum áður en boðuð verkföll aðildarfélaga BSRB hefjast á miðnætti í kvöld.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að mál hafi þokast eitthvað í gær en það sé þó mismunandi á milli viðsemjenda hvernig gangurinn er í viðræðunum. Þannig sé ágætur gangur í viðræðum bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og fáir lausir endar sem eigi eftir að hnýta þar.

Annað sé uppi á teningnum í viðræðum aðildarfélaga við ríkið og Reykjavíkurborg þar sem meira beri á milli. Þannig er tekist á um launaliðinn hjá Sameyki, þar sem ríkið neitar að bjóða félagsmönnum upp á launahækkanir í samræmi við lífskjarasamninginn, þrátt fyrir þá miklu áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á að þeir samningar sem aðildarfélög BSRB gera rúmist innan þess ramma.

Þá eru ýmis mál ófrágengin hjá Sjúkraliðafélagi Íslands gagnvart þeirra viðsemjendum og nokkuð í land eigi samningar að nást.

Boðuð verkföll aðildarfélaga BSRB munu hefjast á miðnætti í kvöld. Ákveðið hefur verið að gera undanþágu fyrir sjúkraliða og annað starfsfólk á Landspítalanum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrstu tvo daga verkfallsins vegna COVID-19 faraldursins. Að öðru leyti munu aðgerðir hefjast samkvæmt áætlun, náist ekki samningar fyrir miðnætti.

Hægt er að skoða hvernig verkfallsaðgerðum verður háttað hér.

Vinnuvika vaktavinnufólk getur styst í 32 stundir

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB undanfarin ár. Myn…
Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB undanfarin ár. Myndin er frá þingi BSRB.

Starfsfólk í vaktavinnu mun geta stytt vinnuviku sína úr 40 stundum í 36, og í einhverjum tilvikum allt niður í 32, samkvæmt samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki sem náðist milli BSRB og viðsemjenda bandalagsins hjá ríkissáttasemjara á miðvikudagskvöld. Áður hafði náðst samkomulag um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu í allt niður í 36 stundir.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar með þessum hætti verða mestu vinnutímabreytingar á íslenskum vinnumarkaði í nær hálfa öld. Með möguleikum á aukinni styttingu hjá vaktavinnufólki er viðurkennd sú krafa BSRB til marga ára að vinnuvika vaktavinnufólks verði styttri en vinnuvika þeirra sem eingöngu vinna í dagvinnu.

Samkomulagið verður hluti af kjarasamningum þeirra aðildarfélaga BSRB sem semja við ríki og sveitarfélög, en er gert með fyrirvara um að samkomulag náist um önnur atriði sem út af standa í kjarasamningsviðræðunum. Samninganefndir BSRB og aðildarfélaga bandalagsins funda alla daga með viðsemjendum hjá ríkissáttasemjara og munu reyna til þrautar að ná saman áður en boðaðar verkfallsaðgerðir aðildarfélaga BSRB hefjast mánudaginn 9. mars.


Meira

Undanþágunefndir vegna verkfalla taka til starfa

 

Stjórnvöld hafa óskað eftir því að undanþágunefndir taki tillit til hættuástands vegna COVID-19 fara…
 
 Stjórnvöld hafa óskað eftir því að undanþágunefndir taki tillit til hættuástands vegna COVID-19 faraldursins og verður að sjálfsögðu orðið við því.

Undanþágunefndir aðildarfélaga BSRB sem boðað hafa til verkfallsaðgerða gagnvart ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa nú opnað fyrir umsóknir um undanþágur. Boðuð verkföll munu hefjast mánudaginn 9. mars næstkomandi, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Stjórnvöld hafa óskað eftir því að umsóknir um undanþágur vegna COVID-19 verði afgreiddar hratt og vel og munu undanþágunefndir að sjálfsögðu taka tillit til þeirra óska og gæta þess í hvívetna að boðað verkfall stefni ekki heilsu fólks í hættu.

Opinberar stofnanir og sveitarfélögin í landinu senda ár hvert undanþágulista á stéttarfélög til samþykktar svo hópur fólks er þegar á undanþágu og mun vinna í verkfallinu. Ef í ljós kemur að einhverjar stöður vantar á listann geta stjórnendur á vinnustöðum sent undanþágubeiðni.

Umsóknir um undanþágu skal senda viðkomandi undanþágunefnd rafrænt. Ein undanþágunefnd er gagnvart öllum aðildarfélögum sem boðað hafa verkfall hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sameyki er með undanþágunefnd gagnvart Reykjavíkurborg og aðra gagnvart ríkinu. Önnur aðildarfélög sem boðað hafa verkfall hjá ríkinu eru með sameiginlega undanþágunefnd.

Hér má finna eyðublöð vegna undanþágubeiðna.

Störf undanþágunefnda í verkfalli undirbúin

 

Undanþágunefndir munu afgreiða beiðnir þegar nær dregur verkfalli. Myndin er frá baráttufundi opinbe…
 
 
Undanþágunefndir munu afgreiða beiðnir þegar nær dregur verkfalli. Myndin er frá baráttufundi opinberra starfsmanna í Háskólabíói í lok janúar.

Undirbúningur vegna yfirvofandi verkfalls er í fullum gangi hjá aðildarfélögum BSRB samhliða kjarasamningsviðræðum. Eitt af því sem þarf að huga að eru undanþágunefndir. Störf félagsmanna á undanþágulista eiga einungis að taka til „nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“ samkvæmt 5. til 19. grein laga nr. 94/1986.

Sé verkfall hafið er heimilt að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi. Undanþágunefnd ákveður hverjir skulu kvaddir til starfa, en í nefndinni er einn fulltrúi tilnefndur af stéttarfélagi og annar af viðsemjenda. Aðildarfélög BSRB eru nú að ganga frá því hverjir sitja í nefndunum. Tekið verður við umsóknum rafrænt og verða umsóknareyðublöð birt þegar nær dregur yfirvofandi verkfalli.

Undanþágunefndir hefja ekki störf fyrr en ljóst er að verkfall brestur á, ennþá eru samningaviðræður í gangi. Verkfall hefst á miðnætti aðfararnótt mánudagsins 9. mars ef samningar nást ekki fyrir þann tíma.

Orðsending frá Landlækni

 
Orðsending frá Landlækni

Vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur landlæknir óskað eftir því að stéttarfélög og heildarsamtök aðstoði við upplýsingamiðlun til félagsmanna sinna en fulltrúar BSRB, ASÍ, BHM og KÍ funduðu með landlæknisembættinu á dögunum vegna þessa. Heildarsamtök og aðildarfélög hafa ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart félagsmönnum um ábyrgð, réttindi og skyldur í heimsfaraldri inflúensu þegar um er að ræða óvissustig, hættustig eða neyðarstig. Fyrir allnokkru lýstu íslensk yfirvöld yfir óvissustigi.


Meira
Upp