Hleð......

Starfsmannafélag Fjarðabyggðar sameinast Kili

 

Fráfarandi stjórn STAF: Björgúlfur formaður (t.v.), Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, Sigurb…
Fráfarandi stjórn STAF: Björgúlfur formaður (t.v.), Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, Sigurborg og Jónína.

Félagar í Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar (STAF) samþykktu sameiningu félagsins við Kjöl stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu á aðalfundi félagsins fimmtudaginn 23. september síðastliðinn.

Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu er eitt af stærstu aðildarfélögum BSRB. Félagið er deildaskipt og í kjölfar sameiningarinnar verður stofnuð STAF-deild innan Kjalar. Aðrar deildir félagsins eru á Dalvík, Siglufirði, Akureyri, í Skagafirði, Húnavatnssýslum og Borgarfirði. Við sameininguna þá tekur Björgúlfur Halldórsson, fráfarandi formaður STAF, sæti í stjórn Kjalar en STAF-deild er tryggt sæti á lista til stjórnar Kjalar stéttarfélags samkvæmt lögum félagsins.

Félagsaldur félagsmanna STAF flyst að fullu til sjóða Kjalar stéttarfélags, orlofssjóðs og starfsmenntasjóðs. Til næstu áramóta verður afgreiðsla styrkja starfsmenntasjóðs og afgreiðsla orlofshúsa STAF með óbreyttu sniði.

Með þessari ákvörðun er hafið sameiningarferli stéttarfélaga sem hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði. Fyrir dyrum stendur á næstu vikum hliðstæð sameiningarkosning fjögurra annarra stéttarfélaga á landsbyggðinni við Kjöl stéttarfélag, það er Starfsmannafélags Fjallabyggðar, Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum og Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi.

Í lögum Kjalar hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir sameiningu við þessi félög. Að auki hafa aðalfundir félagsins ítrekað ályktað um frekari og víðtækari sameiningu við önnur stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu á landsbyggðinni innan BSRB.

Kynningafundir meðal félagsmanna Kjalar verða 11. október næstkomandi. Skráning er nauðsynleg hér.

Fréttir af sameiningarviðræðum

Ágætu félagsmenn SDS 

Til upplýsingar:

Vegna sameiningarviðræðna sem eiga sér stað á milli SDS og Kjalar stéttarfélags í almannaþágu, þá er verið að hringja í félagsmenn þessa dagana og þeim boðið að koma á fund og taka þátt í umræðunni um sameiningu. Hvort og/eða hvernig best verði að henni staðið.

Óháður fagaðili sér um utanumhald á þessum viðræðum og einnig á þessum fundum. Þátttakendur eru valdir handahófskennt af félagaskrá. Þá mæta einnig á fundina stjórnir aðildarfélaganna.

Fundirnir verða þrír á okkar félagssvæði. Fyrsti fundur er 5.október í Búðardal. Annar fundur er 7.okt. í Stykkishólmi snemma morguns og sá þriðji sama dag í Ólafsvík. 

Það er afar mikilvægt að við fáum sem flesta til að mæta, ræða og deila sínum viðhorfum til sameiningarinnar og við teljum að með því að vera með slembiúrtak af félagaskrá aukum við líkurnar á því að fá fleiri og ólík viðhorf til sameiningarinnar.


Meira

Sonja Ýr endurkjörin formaður á 46. þingi BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var endurkjörin formaður BSRB á 46. þingi bandalagsins.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir var endurkjörin formaður BSRB á 46. þingi bandalagsins.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var í dag endurkjörin formaður BSRB til næstu þriggja ára á 46. þingi BSRB með 97,22 prósent greiddra atkvæða. Þingið, sem nú er nýlokið, var rafrænt vegna sóttvarnaraðgerða þegar það var boðað og var allri málefnavinnu sem til stóð að fara í á þinginu frestað þar til á framhaldsþingi.

Sonja var ein í framboði til formanns, en hún var fyrst kjörin formaður bandalagsins á 45. þingi BSRB í október 2018. Á þinginu var Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, kjörinn í embætti 1. varaformanns BSRB. Þá var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu, endurkjörin í embætti 2. varaformanns BSRB.

„Nú þegar við virðumst loksins farin að sjá fyrir endann á faraldrinum þurfum við að horfa til framtíðar. Við höfum einstakt tækifæri til að móta það samfélag sem við viljum búa í eftir kófið og við eigum að grípa það tækifæri. Við vitum ekki enn hvaða ríkisstjórn mun taka við eftir kosningarnar en sjáum öll að það eru stór verkefni sem bíða,“ sagði Sonja þegar hún ávarpaði þingið.

„Eitt af því sem BSRB hefur lagt þunga áherslu á undanfarið er staða þeirra stóru hópa opinberra starfsmanna sem hafa verið í framlínunni í heimsfaraldrinum. Í rúmlega eitt og hálft ár hefur álagið á þennan hóp verið gríðarlegt. Ekki bara í vinnunni heldur líka í einkalífinu þar sem margir hafa lokað sig af til að draga sem mest úr líkum á smiti,“ sagði Sonja.

„Hér erum við að tala um starfsfólk sem starfar í nánum persónulegum samskiptum við fólk á spítölum; hjá heilsugæslunni, við sjúkraflutninga og í velferðarþjónustu við aldraða, fatlaða og sjúka. Við erum líka að tala um starfsfólk almannavarna, lögregluna og fleiri ómissandi hópa. Við getum ekki ætlast til þess að þau standi vaktina endalaust án þess að fá eitthvað á móti. Framlínufólkið á skilið miklu meira en þakklætið eitt og sér og við köllum eftir því að það fái álagsgreiðslur í samræmi við það sem þau hafa lagt á sig til að koma samfélaginu okkar út úr þessum heimsfaraldri.“

„Við þurfum líka að huga að heilsu starfsfólks almannaþjónustunnar, sér í lagi þeirra sem hafa hlaupið sífellt hraðar síðustu mánuði og ár. Við vorum ekki enn búin að jafna okkur eftir harkalegan niðurskurð í kjölfar bankahrunsins 2008 þegar faraldurinn skall á. Nú verðum við að staldra við og hugsa um starfsfólkið, til dæmis með því að skima fyrir kulnun og sjúklegri streitu og bregðast við þegar hættumerki koma í ljós. Það er svo miklu betra og ódýrara en að gera ekki neitt og standa svo allt í einu frammi fyrir því að starfsfólkið hverfur frá störfum í stórum stíl af því það getur einfaldlega ekki meir.“


Meira

Afdrifaríkar ákvarðanir um lífeyriskerfið verða að vera í sátt

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson,…

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Nokkur styr hefur staðið um forsendur og framtíð íslenska lífeyriskerfisins undanfarið. Deilt hefur verið um samtryggingu og séreign og nú eru komnar fram tillögur um hækkun lífeyristökualdurs. Það er launafólk í landinu sem á lífeyriskerfið og því óásættanlegt hve mikið hefur skort á samráð við samtök launafólks þega rætt hefur verið um breytingar á kerfinu. Áframhaldandi skortur á samráði og bútasaumsaðferð í ákvarðanatöku mun reynast almenningi dýrkeyptur.


Meira

Um 85 prósent vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk

 

Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.
 Mun fleiri konur en karlar vilja álagsgreiðslur fyrir framlínufólk.

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að ríki og sveitarfélög greiði því starfsfólki sem hefur verið í framlínunni í baráttunni gegn heimsfaraldrinum aukagreiðslur fyrir það álag sem það hefur verið undir. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem könnunarfyrirtækið Prósent gerði fyrir BSRB.

Um 85 prósent landsmanna vilja að framlínufólkið, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningamenn og aðrir, fái greitt aukalega fyrir það álag sem fylgt hefur faraldrinum. Um níu prósent sögðust hvorki fylgjandi né andvíg slíkum aukagreiðslum og aðeins um sex prósent voru andvíg því að greiða framlínufólkinu álagsgreiðslur.

„Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi síðastliðna átján mánuði og enn sjáum við ekki fyrir endann á þessum faraldri. Við getum ekki gert þá kröfu á þennan stóra hóp fólks að þau leggi endalaust á sig fyrir okkur hin án þess að fá greiðslur í samræmi við þetta mikla álag,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá íslensku þjóðina þjappa sér með þessum hætti að baki þeim sem staðið hafa vaktina í heimsfaraldrinum. Þjóðin er með þessu að segja að þakklætið eitt og sér dugi ekki til heldur þurfi að umbuna framlínufólkinu okkar með sérstökum álagsgreiðslum,“ segir Sonja.

Upp