Hleð......

Þokast hægt áfram í kjaraviðræðum

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl.
Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl.

Kjaraviðræður BSRB við viðsemjendur hafa haldið áfram undanfarið. Viðræður hafa heldur þokast í rétta átt þó hægt hafi gengið. Enn á eftir að leysa úr stórum ágreiningsmálum á borð við styttingu vinnuvikunnar og jöfnun launa milli markaða.

Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl og viðræður við viðsemjendur staðið yfir síðan. BSRB fer með samningsumboð í ákveðnum málaflokkum en aðildarfélög bandalagsins semja hvert fyrir sig um laun og ýmis sérmál. Viðsemjendur eru þrír; ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.


Meira

Námskeið um lífeyrismál við starfslok

 

Boðið verður upp á námskeið um lífeyrismál við starfslok fyrir sjóðfélaga Brúar lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar miðvikudaginn 18. september næst komandi.

Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Brúar lífeyrissjóðs að Sigtúni 42, 2. hæð. 

Á námskeiðinu verður farið almennt yfir helstu réttindi sjóðfélaga, sýnt hvar upplýsingar um lífeyrisréttindi er að finna og spurningum svarað sem brenna á sjóðfélögum um lífeyrismál.

Brú lífeyrissjóður rekur þrjár ólíkar deildir með mismunandi réttindakerfum og er námskeiðið því skipt upp eftir því. Takmarkaður fjöldi sæta eru í boði á hvert námskeið en leitast er við að bæta við námskeiðum fari skrásetning fram úr áætluðum sætafjölda.

B deild - LsRb - LSK  kl. 16.30
A deild kl. 17.30
V deild kl. 18.30 

Skráning hér

Við bjóðum Sigríði Ingibjörgu velkomna til liðs

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hóf störf í dag sem hagfræðingur BSRB.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hóf störf í dag sem hagfræðingur BSRB.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur verið ráðin í stöðu hagfræðings BSRB og tók hún til starfa í dag. Sigríður hefur víðtæka þekkingu af málefnum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnsýslunnar og mikla reynslu af greiningarvinnu og stefnumótun.

„Það er afar ánægjulegt að bætast í hóp starfsmanna BSRB og vinna að hagsmunum um 22 þúsund félagsmanna bandalagsins,“ segir Sigríður. „Þetta eru spennandi tímar, kjaraviðræður í fullum gangi og mikil vinna fram undan hjá bandalaginu. Ég hlakka til að takast á við verkefnin og kynnast öllu því góða fólki sem starfar hjá aðildarfélögum BSRB.“

Sigríður starfaði áður á hagdeild ASÍ, sem sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og sem sérfræðingur á þjóðhagsreikningasviði Hagstofunnar og hefur því víðtæka þekkingu og reynslu af greiningarvinnu á sviði kjara-, velferðar-, skatta- og ríkisfjármála.

Þá sat hún á Alþingi í sjö ár og var formaður fjárlaganefndar en lengst af formaður velferðarnefndar þingsins. Sigríður hefur nýlokið meistaranámi í stjórnun og opinberri stefnumótun við Goldman School of Public Policy við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Fyrir var hún með meistaragráðu í viðskipta- og hagfræði frá Uppsala-háskóla í Svíþjóð.

„Við erum afar heppin að hafa fengið svo öfluga konu til liðs við okkur. Hennar víðtæka reynsla mun nýtast okkur vel í yfirstandandi kjaraviðræðum og í öðrum stórum verkefnum sem eru fram undan,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Vaktavinnufólk þarf styttri vinnuviku

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
 

Eitt af stóru málunum í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi hjá opinberum starfsmönnum er stytting vinnuvikunnar. Eftir tilraunaverkefni hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu sem hafa sýnt fram á ótvíræða kosti bæði fyrir launafólk og atvinnurekendur er ekki eftir neinu að bíða.

Í tilraunaverkefnunum hefur vinnuvikan verið stytt um allt að fimm klukkustundir án þess að laun skerðist. Krafa BSRB er 35 stunda vinnuvika og að vinnuvika vaktavinnufólks sé stytt enn meira.

Á flestum vinnustöðum er hægt að stytta vinnutímann án þess að það bitni á afköstum með því að skipuleggja vinnutímann betur. Það sýna tilraunaverkefnin okkur svart á hvítu. Það á þó ekki við um vaktavinnustaði þar sem manna þarf störf allan sólarhringinn. 
En málið er ekki svo einfalt. Þurfi að leggja í einhvern kostnað til að manna vaktir eftir styttingu vinnuvikunnar getur hann komið til baka með öðrum hætti. Starfsfólk í vaktavinnu upplifir gjarnan mikið álag í sinni vinnu. Álagið hefur margvísleg áhrif, til dæmis hærri veikindatíðni en hjá dagvinnufólki og fleiri vinnuslys. Þá veldur álagið einnig einkennum kulnunar hjá sífellt stærri hópi. Þess vegna þurfum við að stytta vinnuviku vaktavinnufólks meira en vinnuviku annarra.

Það tapa allir á auknum veikindum og kulnun. Starfsfólkið tapar heilsunni, atvinnurekendur tapa peningum og samfélagið allt verður fyrir miklum kostnaði. Stytting vinnuviku vaktavinnufólks getur dregið úr álaginu og minnkað veikindin og einkenni kulnunar. Því ættu atvinnurekendur að líta á hana sem fjárfestingu í sínu góða starfsfólki og leið til að efla vinnustaðinn, ekki hreinan kostnað sem engu skilar.

Stjórnvöld verða að taka skrefið

Álag í starfi og einkenni kulnunar eru alvarlegt vandamál í almannaþjónustunni. Þeir sem sinna almannaþjónustu eru í mörgum tilvikum í miklum samskiptum við fólk. Þar má nefna heilbrigðisstéttir starfsfólk í skólum, í löggæslu og fleiri. Rannsóknir sýna að hættan á veikindum og kulnun er mun meiri meðal fólks í þjónustustörfum vegna þess álags sem fylgir því að vera í nánum samskiptum við fólk alla daga og oft í krefjandi aðstæðum.

Í ljósi þessa starfsumhverfis þurfa opinberir atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög, að ganga fram með góðu fordæmi. Þau þurfa að spyrna niður fæti og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr álagi og kulnun. Þær kjaraviðræður sem nú eru í gangi munu skera úr um hvort stjórnvöld eru tilbúin til að taka skrefið. Stjórnvöld verða að ganga á undan með góðu fordæmi með því að stytta vinnuvikuna og auka þar með lífsgæði og bæta heilsu launafólks.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Mannlífi.

Aukin lífsgæði og betri líðan með styttri vinnuviku

Þátttakendur í tilraunaverkefni ríkisins um styttingu vinnuvikunnar gátu eytt meiri tíma með fjölsky…
Þátttakendur í tilraunaverkefni ríkisins um styttingu vinnuvikunnar gátu eytt meiri tíma með fjölskyldu og vinum.
 

Þátttakendur í tilraunaverkefni ríkisins um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar upplifðu aukin lífsgæði og leið betur bæði í vinnunni og heima fyrir eftir tólf mánuði af styttingu vinnuvikunnar. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem unnin var í tengslum við tilraunaverkefnið.

Niðurstöðurnar passa vel við aðrar niðurstöður úr þessu og öðrum tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar. Þær byggja á eigindlegri rannsókn þar sem gögnum var safnað með rýnihópum og viðtölum á vinnustöðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu.

Í skýrslu þar sem niðurstöðurnar eru teknar saman er einnig vitnað í stjórnendur á þeim vinnustöðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Að þeirra mati vann starfsfólkið hraðar, lagði meira af mörkum og tók styttri pásur eftir að vinnuvikan var stytt. Þá var það upplifun stjórnenda að meira væri um samstarf og samhjálp á vinnustöðunum.

Tíminn eftir vinnu nýttist starfsfólkinu betur til að sinna fjölskyldum, vinum og tómstundum. Sérstaklega var mikil ánægja með tilraunaverkefnið hjá þeim sem hættu snemma á föstudögum og fannst þeim muna mikið um að lengja helgarfríið á þennan hátt.

Þegar makar starfsmannanna voru spurðir um áhrifin sögðu þeir að styttingin hafi létt álagi af fjölskyldum þeirra, sér í lagi þar sem ung börn voru á heimilinu. Upplifun makanna var almennt sú að dregið hafi úr streitu á morgnana og seinnipartinn og makinn væri ekki eins þreyttur eftir vinnudaginn.


Meira
Upp