Hleð......

Algjör stöðnun í jafnréttismálunum

„Ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá …
„Ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Heildartekjur karla eru að jafnaði um 29 prósentum hærri en heildartekjur kvenna samkvæmt nýuppfærðri tekjusögu stjórnvalda. Við blasir algjör stöðnun í jafnréttismálum þar sem engin raunveruleg framþróun hefur orðið undanfarið segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í vitali við RÚV um þessa stöðu.

Meginástæðan fyrir þessum mikla tekjumun er að rangt var gefið í upphafi og ekki hefur tekist að leiðrétta það skakka verðmætamat sem liggur til grundvallar launum stórra kvennastétta.

„Störf þar sem konur eru í meirihluta voru áður unnin inni á heimilunum og færðust svo inn á vinnumarkað, til dæmis umönnunarstörf og störf á leikskólum. Og þá er bara rangt gefið í upphafi af því að samfélag þess tíma mat þessi störf ekki að verðleikum, og það er ennþá þannig. Því ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Fleira spilar inn í, til dæmis sú aukna ábyrgð sem konur axla á ólaunaðri vinnu inni á heimilunum og sú staðreynd að konur eru frekar í hlutastörfum en karlar. Þá hefur kynbundið náms- og starfsval einnig mikil áhrif, sem og völd almennt enda veljast konur síður til stjórnunarstarfa en karlar.


Meira

BSRB kallar eftir aðgerðum fyrir lágtekjufólk

 

Lengja ætti tímabil atvinnuleysisbóta í fjögur ár að mati formannaráðs BSRB.
 
 
Lengja ætti tímabil atvinnuleysisbóta í fjögur ár að mati formannaráðs BSRB.

BSRB kallar eftir því að tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið í fjögur ár og stjórnvöld grípi til frekari aðgerða til að bæta kjör atvinnulausra og lágtekjufólks.

Í ályktun fundar formannaráðs BSRB, sem nú er nýlokið, er þess krafist að stjórnvöld grípi þegar í stað til tímabundinna aðgerða til að bæta kjör atvinnulausra og auki einnig stuðning við lágtekjufólk til lengri tíma.

Könnun sem Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi, og kynnt var fyrr í vikunni, sýnir að fjórðungur launafólks og helmingur atvinnulausra eiga erfitt með að ná endum saman. Þar kemur einnig fram að sérstaklega þurfi að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu og slæmri heilsu meðal innflytjenda, ungs fólks og kvenna.

„Formannaráðið leggur til að stjórnvöld lengi tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið í að minnsta kosti fjögur ár og hækki auk þess grunnbæturnar. Þá ættu bæði ríki og sveitarfélög að skapa sem fyrst fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir fólk,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðs BSRB. Þar er einnig kallað eftir auknum stuðningi við tekjulægstu hópana á vinnumarkaði með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur.

BSRB kallar einnig eftir því að stofnstyrkjum til byggingar leiguhúsnæðis í almenna íbúðakerfinu verði fjölgað og að aðgengi tekjulágra að heilbrigðiskerfinu verði bætt.

Hægt er að lesa ályktun formannaráðs BSRB í heild sinni hér.

Félagsmannasjóðurinn Katla

Búið er að opna fyrir umsóknir í Kötlu félagsmannasjóð sem er sjóður þeirra stéttarfélaga BSRB og félagsmanna þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Félagsmenn sækja um á rafrænni umsóknarsíðu sjóðsins og leggja fram viðeigandi upplýsingar svo sem síðasta launaseðil viðmiðunarárs, starfshlutfall og starfstíma yfir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020. 

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar. Greitt verður úr sjóðnum í apríl, nánari upplýsingar á https://katla.bsrb.is/ 

Sækja um hér: https://minarsidurkatla.bsrb.is/innskraning/?ReturnUrl=%2fdefault.aspx 

Fræðsluefni fyrir alla um styttingu í vaktavinnu

 

Mikið af kynningarefni um styttingu vinnuvikunnar má finna á vefnum betrivinnutimi.is.
Mikið af kynningarefni um styttingu vinnuvikunnar má finna á vefnum betrivinnutimi.is.

Nú þegar innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu er lokið eða að verða lokið á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga er undirbúningur undir styttinguna hjá vaktavinnufólki kominn á fullan skrið og tími til kominn fyrir alla sem starfa í vaktavinnu á vinnustöðum hins opinbera að kynna sér málið.

Mikið af kynningarefni hefur þegar verið gefið út og breytir engu hvort starfsfólki hentar betur að lesa sér til eða horfa á stutt og vel framsett kynningarmyndbönd, allir geta fundið kynningarefni við sitt hæfi.

Samið var um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og annarra stéttarfélaga opinberra starfsmanna í mars 2020. Hjá vaktavinnufólki fylgja þessari byltingu í vinnutíma ákveðnar breytingar á launamyndunarkerfi sem gott er að kynna sér.

Vinnuvika vaktavinnufólks mun að lágmarki styttast úr 40 stundum í 36. Hún mun styttast enn meira hjá þeim sem eru á þyngstu vöktunum, allt niður í 32 stundir.

BSRB og aðrir samningsaðilar standa að vefnum betrivinnutimi.is þar sem settar hafa verið inn leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur svo allir geti kynnt sér þær breytingar sem framundan eru. Þar sem viðbúið er að meira efni bætist við væri sniðugt að skrá sig í áskrift á vefnum hér.

Fyrir þá sem vilja fá yfirlit í einum pakka má benda á stutt PDF-skjal með helstu upplýsingum.

Þeir sem frekar kjósa að horfa geta horft á stutt kynningarmyndband um styttinguna hjá vaktavinnufólki hér að neðan:

 

Hér er svo farið yfir umbótasamtal á vinnustaðnum:

 

Hér er fjallað um ávinning kerfisbreytinga:

 

Og hér er myndband um markmið og leiðarljós með styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki:

 

Það er auðvelt fyrir alla að kynna sér hvað framundan er í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Við hvetjum alla til að kynna sér málið á betrivinnutimi.is og skrá sig í áskrift til að fá allt nýjasta efnið sem bætist við á vefinn.

Opnunartími skrifstofu SDS tekur breytingum.

Opnunartími skrifstofu SDS mun breytast frá og með morgundeginum 15.janúar 2021. Ákvörðunin er tekin í takt við breyttu verklagi starfsmanns sem kemur út frá styttingu vinnuvikunnar sem samið var um í síðustu kjarasamningum.

Skrifstofan verður opin;

 mánudaga – fimmtudaga frá 9.00 - 12.30 / 13.00 – 17.00

föstudaga frá 9.00- 13.00 

Stjórn SDS

Upp