Hleð......

Umsóknafrestur rennur út 1.ágúst!

Orlof að eigin vali  

Félagsmönnum gefst kostur á að sækja um styrk sem er kallaður „Orlof að eigin vali“.

Sækja þarf um styrkinn inn á bókunarsíðu orlofsvefs undir „STYRKIR“.

Ekki er hægt að sækja um á skrifstofum félaganna.

Í boði eru 120 styrkir hver að upphæð kr. 23.000.

Hver félagsmaður getur fengið styrk annað hvert ár.

Styrkur er greiddur út að dvöl eða ferð lokinni og framvísa þarf löglega númeruðum vsk.-reikningi sem gefinn er út á umsækjanda styrksins.

Orlof að eigin vali gildir fyrir orlofsdvöl á almanaksárinu 2019 og sækja þarf um á tímabilinu                        1. apríl og í síðasta lagi fyrir 1. ágúst.

Dæmi um orlofsdvöl að eigin vali geta verið dvöl á hóteli, orlofsferð innanlands eða erlendis (sólarferð eða annað), leiga á ferðavögnum, eða hvað annað sem félagsmaður kýs að gera í sumarfríinu.

Ekki er hægt að framvísa kvittunum fyrir þjónustu sem Samflot, eða stéttarfélög innan Samflots, bjóða sínum félagsmönnum. Aldrei er greitt hærra en 50% af útlögðum kostnaði.

Þeir sem fá úthlutað styrk þurfa að skila inn kvittun fyrir útgjöldum og staðfestinguna frá Samfloti á skrifstofu síns aðildarfélags og fá þá styrkinn greidda að uppfylltum áður greindum skilyrðum.

Ekki er hægt að fá úthlutað „orlofi að eigin vali“ og vikudvöl í íbúð eða orlofshúsi á sumar-orlofstíma á sama árinu. 

Sumarlokun skrifstofu SDS 

 

Skrifstofan verður lokuð frá 29. júlí - 26.ágúst, vegna sumarleyfa.

Ef nauðsyn ber, má hafa samband í síma 899-7090.

Með von um að þið hafi það sem allra best í sumarleyfinu. 

                                                              Með sólarkveðju, Helga

Starfsmenn í hlutastörfum eiga rétt á kaffitímum

Réttur til að taka kaffihlé á vinnutíma er til staðar í réttu hlutfalli við starfshlutfall fólks í h…
Réttur til að taka kaffihlé á vinnutíma er til staðar í réttu hlutfalli við starfshlutfall fólks í hlutastörfum.
 

Starfsmenn í hlutastörfum eiga sama rétt og aðrir starfsmenn til að taka kaffihlé á vinnutíma. Réttindin haldast þó í hendur við starfshlutfall þannig að kaffitímarnir verða styttri hjá þeim sem eru í litlu starfshlutfalli.

Almennt er ákvæði í kjarasamningi opinberra starfsmanna þess efnis að á venjulegum vinnudegi skulu vera tveir kaffitímar, 15 mínútur og 20 mínútur, og skuli þeir teljast til vinnutíma. Þannig eru kaffitímar daglega 35 mínútur fyrir fullt starf í dagvinnu. Matartími getur verið 30 til 60 mínútur en almennt telst sá tími ekki til vinnutíma.

Þegar starfsmaður vinnur í hlutastarfi getur verið ágreiningsmál milli hans og vinnuveitanda hvernig skuli fara með kaffitíma. Til eru dæmi þess að starfsmaður í 50 prósent starfi sem þó vinnur heila vinnudaga hafi einungis fengið 17,5 mínútur í kaffihlé hvern vinnudag, en ekki 35 mínútur samkvæmt kjarasamningi. Í þessu sambandi skal hafa í huga að orðalag ákvæðisins í kjarasamningi gerir ráð fyrir því að réttur til 35 mínútna kaffitíma miðast við hvern vinnudag fyrir sig.


Meira

Orð í tíma töluð!

Hættum ohf-væðingunni!

 
Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.
 
 
Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.

Engin haldbær rök eru fyrir því að einkavæða póstþjónustu í landinu með því að selja Íslandspóst ohf. eins og fjármála- og efnahagsráðherra hefur talað fyrir. Frekar ætti að skoða á hvaða vegferð hið opinbera hefur verið með ohf-væðingu stofnana ríkis og sveitarfélaga og hvort tilefni er til að vinda ofan af því ferli.

Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og fleira og það verður að vera í forgrunni í allri umræðu um rekstarform þjónustunnar. Markmiðið á að vera að tryggja almenningi um allt land þessa nauðsynlegu þjónustu með hagkvæmum hætti. Vandi Íslandspósts hefur ekki verið eignarhald félagsins heldur skortur á stefnumótun.


Meira

Félagsmenn BSRB hjá ríki, sveitarfélögum og Reykjavíkurborg munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst.

Kæru félagsmenn SDS

Samkomulag hefur náðst við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um framhald kjaraviðræðna. Eins og í samkomulagi sem gert var við ríkið er kveðið á um að launagreiðendur greiði félagsmönnum aðildarfélaga BSRB ,           105 þúsund króna innágreiðslu þann 1. ágúst næstkomandi, miðað við 100% starf.

Ekki hefur ennþá verið gengið frá samskonar samkomulagi við SFV, en verið að vinna að því og lítil ástæða til annars en það gangi eftir fljótlega. 

Greiðslan er til komin vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga. Í nýjum viðræðuáætlunum kemur fram að stefnt sé að því að ljúka nýjum kjarasamningin fyrir 15. september, en samningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá byrjun apríl.

Í samningaviðræðum við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira og leggur bandalagið áherslu á að þessi flóknu mál verði unnin faglega.

Í endurskoðaðri viðræðuáætlun við ríkið kemur fram að þar sem langt sé síðan kjarasamningar hafi runnið út verði greidd innágreiðsla inn á nýja samninga, 105 þúsund krónur. Samskonar ákvæði eru í endurskoðuðum áætlunum vegna samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sem aðildarfélög BSRB hafa undirritað, eða munu undirrita á næstu dögum.

Þar er einnig kveðið á um friðarskyldu til 15. september og að stutt hlé verði gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið hefur gengið í kjaraviðræðum yfir hásumarið.

Upp