Hleð......

Aðalfundur BSRB: Trúum og stöndum með konum

 

Fjöldi kvenna hefur stigið fram undanfarið og sagt frá upplifunum sínum af áreitni og ofbeldi.
 
 
Fjöldi kvenna hefur stigið fram undanfarið og sagt frá upplifunum sínum af áreitni og ofbeldi.

Aðalfundur BSRB lýsir yfir stuðningi við konur sem stigið hafa fram í nýrri bylgju #metoo frásagna með sögur af ofbeldi og áreitni, en einnig þær konur sem ekki hafa stigið fram opinberlega með sínar sögur.

„Við trúum ykkur og stöndum með ykkur,“ segir meðal annars í yfirlýsingu aðalfundar bandalagsins um #metoo. Ályktunin var samþykkt einróma á fundinum sem lauk um hádegi í dag.

Ályktun aðalfundarins er svohljóðandi:

Aðalfundur BSRB lýsir yfir stuðningi við þær konur sem stigið hafa fram undanfarið til að segja sögur sínar af áreitni og ofbeldi og einnig þær sem ekki hafa stigið fram opinberlega í nýrri bylgju #metoo frásagna. Við trúum ykkur og stöndum með ykkur.

Konur sem hafa upplifað ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur konur úr öllum kimum samfélagsins. Fatlaðar konur, innflytjendur og transfólk búa við hvað mesta hættu á að verða fyrir ofbeldi.

Önnur bylgja #metoo getur ýft upp gömul sár og því hvetur aðalfundur BSRB atvinnurekendur til að veita þolendum svigrúm til að leita sér aðstoðar til að vinna úr reynslu sinni. Við minnum einnig á að hægt er að leita til stéttarfélaga til að fá stuðning vegna ofbeldis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni á vinnustöðum.

Fulltrúar á aðalfundi BSRB kalla eftir því að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og samfélagið allt ráðist í aðgerðir til að tryggja öllum réttlæti og líf án ofbeldis. Öxlum öll ábyrgð á að breyta menningunni innan veggja heimilisins, í vinahópnum, skemmtanalífi, vinnunni, búningsklefanum, félagsstarfi og alls staðar. Við berum öll ábyrgðina á því að halda umræðunni vakandi, að sýna virðingu og samkennd í samskiptum hvert við annað og auka vitund og skilning á kynjakerfinu sem við búum við. Jafnréttismál eru málefni okkar allra – ekki bara kvenna.

Reykjavík, 18. maí 2021

Niðurskurður er ekki valkostur

Ekki hefur verið gert nóg til að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna heimsfaraldursi…
 
Ekki hefur verið gert nóg til að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna heimsfaraldursins.

Sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar vegna efnahagslegra áhrifa COVID-faraldursins varar við neikvæðum afleiðingum niðurskurðar og samdráttar á velferð og lýðheilsu og bendir á að ekki hafi verið gert nóg til að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna efnahagskreppunnar sem faraldurinn hefur framkallað.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sérfræðingahóps ASÍ og BSRB sem birt er í dag. Hópurinn telur skuldir ríkisins ekki vera áhyggjuefni svo lengi sem vextir eru lægri en hagvöxtur. Skuldahlutfall Íslands sé í lægra lagi í alþjóðlegu samhengi og atvinna og afkoma ættu að vera lykilhugtök til að tryggja að hagvöxtur framtíðarinnar geti létt á skuldaálaginu. Lög og reglur um opinber fjármál eigi að styðja við þessi áhersluatriði og nauðsynlegt sé að endurmeta fjármálareglur laga um opinber fjármál áður en þær eru settar í samband að nýju.


Meira

Lífskjarasamningurinn leiðir launaþróun en ekki opinberir starfsmenn

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
 
 
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Þó að ágætis árangur hafi náðst í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB vorið 2020 er langt því frá að hið opinbera sé farið að leiða launaþróun í landinu eins og ýmsir hafa haldið fram undanfarið. Hið rétta í málinu er að Lífskjarasamningurinn, sem gerður var á almenna markaðinum, leiddi launaþróunina. Opinberu félögin sömdu í kjölfar hans og um sambærilegar launahækkanir.

Mikið hefur verið skrifað um nýbirtar upplýsingar um þróun launavísitölu frá 2019. Réttilega hefur verið bent á að hlutfallslegar launahækkanir opinberra starfsmanna hafi verið meiri heldur en starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum. Líkt og gjarnan er þegar allt kapp er lagt á að mála tiltekna mynd er alfarið sleppt að benda á hið augljósa í þessu, að launahækkanirnar eru hlutfallslega hærri vegna samsetningar hópsins sem launahækkanirnar fékk, það er hve hátt hlutfall er með lágar tekjur. Svo er látið liggja á milli hluta að þetta er staðan á einum tilteknum tímapunkti og segir ekki til um launaþróun í gegnum árin eða hvort launasetning opinberra starfsmanna sé sanngjörn eða eðlileg með hliðsjón af þeim kröfum sem störfin gera til starfsmanna né mikilvægi framlags þeirra til verðmætasköpunar.

Það verður að hafa í huga að launamunur á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, hefur verið metinn að meðaltali 16 prósent, opinberum starfsmönnum í óhag. Einnig að launakjör opinberra starfsmanna taka almennt eingöngu mið af því sem kjarasamningur segir. Á almenna vinnumarkaðnum er þessu öfugt farið, þar eru laun almennt hærri heldur en sagt er fyrir um í kjarasamningum.


Meira

Baráttusamkoma í Sjónvarpinu 1. maí

 

Jakob Birgisson uppistandari er einn þeirra listamanna sem taka þátt í skemmti- og baráttusamkomunni…
 
Jakob Birgisson uppistandari er einn þeirra listamanna sem taka þátt í skemmti- og baráttusamkomunni á RÚV.

Annað árið í röð og í annað skiptið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Líkt og í fyrra er brugðist við þessari stöðu með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu sem verður sjónvarpað á RÚV að kvöldi 1. maí klukkan 21:00.

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hugleiðingar launafólks víða af á landinu einkenna þáttinn. Meðal listamanna sem koma fram eru Emilíana Torrini og vinir, Margrét Rán og félagar, Fjallabræður, Skoffín, Moses Hightower, Jakob Birgisson uppistandari og Öreigarnir (blásarasveit Samma og Co).

Það er nóg til er yfirskrift 1. maí að þessu sinni. „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því besta sem þekkist í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi. Það er nóg til!

Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína á Facebook 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á RÚV um kvöldið.

Að dagskránni í Sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Upp