Hleð......

Til sameiningarviðræðna

 Sælir SDS félagar

Eins og áður hefur komið fram á aðalfundum SDS í gegnum árin, þá höfum við verið að kanna möguleika á sameiningu við önnur stéttarfélög innan BSRB. Sameiningarviðræður hafa farið af stað, en þó aldrei þannig að til kæmi kosning um sameiningu síðan 2004. Á síðasta aðalfundi voru fundarmenn upplýstir á sameiningarviðræðum við FOS.Vest og ef ekkert yrði af frekari viðræðum, sem varð raunin,  þá myndum við halda áfram að kanna aðra möguleika í stöðunni.

Stjórn samþykkt á stjórnarfundi í mars að ganga til sameiningarviðræðna ásamt 4 öðrum aðildarfélögum innan Samflotsins, við Stéttarfélagið Kjöl https: https://www.kjolur.is/is . Aðildarfélögin sem verða með okkur í viðræðunum eru; STAF og FOSA á austurlandi, St.Fjallabyggð á norðurlandi og FOS.Vest á vestfjörðum. Tvö önnur aðildarfélög eru innan Samflotsins og höfðu þau ekki áhuga á að koma með í viðræðurnar, þau eru STAVEY og St.Húsavík.

Forsvaramenn Kjalar hafa boðið okkur að koma til fundar við þau á Akureyri 26.apríl. Hvað sá fundur og eflaust nokkrir fundir eftir hann, koma til með að færa okkur verður tíminn að leiða í ljós. En eitt er alveg víst að ekkert verður ákveðið nema með ykkar aðkomu og samþykki, kæru félagar.

Ef til þessarar sameiningar kæmi, yrði félagafjöldinn um 2.200 manns og næði félagssvæði Kjalar um öll landsvæðin nema suðurlandið.

Það er trú okkar sem förum saman til þessarar viðræðna að með þeim muni samtakamátturinn koma til með að efla og styrkja í leiðinni okkar kjara-og réttindabaráttu í krafti fjöldans og stærðar.

Við komum líka til með að senda á ykkur upplýsingar af viðræðunum eins og hægt er og standa fyrir trúnaðarmanna- og almennum félagsfundum til að ná til sem flestra félagsmanna svo að á  aðalfundi okkar þann 4.september muni fundarmenn geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort að gengi verði til sameiningar við Kjöl eða ekki. Ákvörðunin er félagsmannsins, fyrst og fremst.  

Ef þú kæri félagi vilt koma þinni skoðun eða hugmyndum til stjórnar fyrir fyrsta sameiningarviðræðufundinn á Akureyri og/eða seinna, vinsamlegast sendu okkur línu á netfangið okkar; dalaogsnae@gmail.com 

F.h.stjórnar SDS

Helga Hafsteinsdóttir

Formaður SDS

 

 

 

Orlofsuppbótin 2021  

Starfsmenn sem taka laun samkv.kjarasamningi við sveitafélög fá greidda orlofsuppbót

      1.maí 2021 kr. 51.700 miðað við 100% starfshlutfall.

Starfsmenn sem taka laun samkv.kjarasamning við ríki fá greidda orlofsuppbót

      1.júní 2021 kr. 52.000 miðað við 100% starfshlutfall 


Meira

Námskeið um betri tímastjórnun í styttri vinnuviku

 

Góð tímastjórnun auðveldar styttingu vinnuvikunnar.
 
 
Góð tímastjórnun auðveldar styttingu vinnuvikunnar.

Fræðslusetrið Starfsmennt stendur fyrir námskeiði um betri tímastjórnun tengt styttingu vinnuvikunnar þriðjudaginn 27. apríl milli klukkan 13 og 15.

Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um algenga tímaþjófa, forgangsröðun, skipulagningu og áætlanagerð ásamt truflanir af ýmsum toga. Þeir sem taka þátt í námskeiðinu munu geta tileinkað sér betra skipulag og forgangsröðun verkefna og munu læra að finna meiri tíma fyrir mikilvægustu verkefnin.

Námskeiðið, eins og önnur þjónusta Starfsmenntar, er félagsmönnum aðildarfélaga að kostnaðarlausu en aðrir sem vilja taka þátt í námskeiðinu geta leitað til starfsmenntunarsjóða sinna stéttarfélaga.

Nánari upplýsingar um námskeið í betri tímastjórnun og skráningu á námskeiðið má finna hér.

Vefur BSRB um styttingu vinnuvikunnar verðlaunaður

 
Vefurinn styttri.is var besta frétta- og upplýsingavefur ársins 2021.
 
 
Vefurinn styttri.is var besta frétta- og upplýsingavefur ársins 2021.

Upplýsingavefur BSRB um styttingu vinnuvikunnar, styttri.is, var sigurvegarinn í flokknum besti íslenski frétta- og upplýsingavefurinn á Íslensku vefverðlaununum 2021 sem afhent voru á föstudaginn.

Það var Hugsmiðjan sem hannaði vefinn fyrir BSRB, en markmiðið var að setja fram á skýran og hnitmiðaðan hátt allt um styttingu vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk. Vefurinn nýttist gríðarlega vel á meðan innleiðingarferli var í gangi á vinnustöðum hjá ríki og sveitarfélögum fyrir áramót, en styttingin á stöðum þar sem unnið er í dagvinnu tók gildi um áramótin.

Í umsögn dómnefndar um styttri.is segir meðal annars:

Kraftmikill efnis- og fréttavefur sem gefur sterkan tón til notandans. Vefurinn er áhrifamikill og dálítið óhefðbundinn en nær algjörlega að koma skilaboðunum á framfæri. Notandinn á auðvelt með að rata um vefinn enda er framsetning efnisins skýr og greinileg. Mjög áhugaverður vefur með nýstárlegri framsetningu.

Meira

Stefna stjórnvalda getur hægt á efnahagsbatanum

Grípa verður til frekari aðgerða til að bregðast við atvinnuleysi.
Grípa verður til frekari aðgerða til að bregðast við atvinnuleysi.

BSRB kallar eftir frekari aðgerðum fyrir atvinnulausa og mótmælir áherslu stjórnvalda á að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs í umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Varað er við því í umsögninni að sú stefna sem mörkuð er í áætluninni geti hægt á efnahagsbata næstu ára.

Í umsögninni eru stjórnvöld hvött til að bregðast við miklu atvinnuleysi af fullum þunga. BSRB fagnar átaki stjórnvalda sem ætlað er að skapa um 7.000 störf fyrir atvinnulausa en bendir á að þessi aðgerð dugi ekki ein og sér. Því verði stjórnvöld að útfæra frekari aðgerðir til að skapa störf.

„BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Mjög mikilvægt er að styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu,“ segir meðal annars í umsögn BSRB.


Meira
Upp