Hleð......

Frá formanni BSRB vegna styttingu vinnuvikunnar

Kæru félagar, 

Umræðan um hvernig breyta má skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna er nú hafin  á flestum vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga. Hér að neðan fjalla ég um styttingu  vinnuvikunnar aðallega út frá vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Undirbúningur  styttingar vinnuvikunnar er einnig hafinn hjá starfsfólki í vaktavinnu og má finna frekari  upplýsingar þar um á betrivinnutimi.is.  

Meginmarkmiðið þegar stytting vinnuvikunnar er undirbúin á hverjum vinnustað er að  finna leiðir til að endurskipuleggja vinnuna þannig að hægt sé að stytta vinnuvikuna  niður í 36 stundir á viku. Þessar breytingar munu stuðla að betri heilsu, betri  samræmingu vinnu og einkalífs og auknum lífsgæðum starfsfólks. Til að vel takist til  verður að tryggja góðan undirbúning og þátttöku allra á vinnustaðnum, enda enginn  sem þekkir verkefnin betur en starfsfólkið sem sinnir þeim alla daga.  

Vinnuvikan hefur verið 40 stundir hér á landi í næstum 50 ár. Það hefur gríðarlega  margt breyst frá því hún tók gildi. Á þeim tíma voru nær allar konur heimavinnandi,  það voru engar tölvur, ekkert internet og svo mætti lengi telja. Það eru engin vísindaleg  rök fyrir því að nákvæmlega sá fjöldi vinnustunda sem passaði samfélaginu fyrir hálfri  öld henti best í öllum þeim fjölbreyttu störfum sem við vinnum í dag. Það er því öllum hollt að velta fyrir sér hvernig megi losa sig úr viðjum vanans og hugsa vinnuvikuna upp á nýtt, öllum til hagsbóta.  


Meira

Þarf að hækka atvinnuleysisbætur og örorkubætur

 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var í Silfrinu í Sjónvarpinu á sunnudag. (Mynd/RÚV)
 
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var í Silfrinu í Sjónvarpinu á sunnudag. (Mynd/RÚV)

Hækka þarf atvinnuleysisbætur til að tryggja afkomu fólks sem misst hefur vinnuna vegna faraldurs kórónaveirunnar og hækka bætur almannatrygginga til öryrkja, sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, í viðtali í Silfrinu í Sjónvarpinu í gær.

„Þegar við hjá BSRB veittum umsögn um fjárlögin sem nú eru í gildi vöruðum við við því að það væri verið að hækka atvinnuleysisbætur og lítið, sem og bætur almannatrygginga. Þær voru ekki hækkaðar til samræmis við kjarasamningsbundnar hækkanir,“ sagði Sigríður. „Svo gerist það sem enginn vissi þá að það sannarlega reynir á þetta kerfi sem aldrei fyrr.“

Bæði grunn atvinnuleysisbætur og tekjutengdar bætur eru of lágar. „Okkar verkefni núna í þessum ömurlegu aðstæðum er að tryggja afkomu fólks þannig að fólk komist í gegnum þetta með eins litlum skakkaföllum og mögulegt er,“ sagði Sigríður. Hún benti á að grunnbæturnar séu 289 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt, 45 þúsund krónum undir lágmarkslaunum

Eins og Sigríður kom inn á í viðtalinu hefur BSRB einnig kallað eftir því að örorkubætur verði hækkaðar. „Öryrkjar eru hópur sem þar stendur sérstaklega höllum fæti og býr við gallað kerfi. Þarna eru hópar sem eru í miklu meiri hættu en aðrir að lenda í fátækt,“ sagði Sigríður.

Hægt er að horfa á viðtalið og lesa meira á vef RÚV.

Launafólk sniðgengið við mat á áhrifum sóttvarna

 

Forystukonur BSRB, ASÍ og BHM mótmæla harðlega skipan fjármálaráðherra í starfshóp um mat á efnahags…
 
 
Forystukonur BSRB, ASÍ og BHM mótmæla harðlega skipan fjármálaráðherra í starfshóp um mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarna.

Forystukonur ASÍ, BHM og BSRB mótmæla því harðlega að fjármálaráðherra ætli ekki að hafa fulltrúa launafólks með í ráðum við mat á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum.

Við köllum eftir því að starfshópur fjármálaráðherra sem vinna mun reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum verði breikkaður þannig að sjónarmið fleiri en atvinnurekenda fái að koma þar fram. Það er gamaldags viðhorf að efnahagsmál snúist fyrst og fremst um fyrirtæki en ekki heimili og almenning.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins um skipan starfshópsins er tekið fram að hann eigi að taka tillit til ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Þar hefur fulltrúi stórfyrirtækja, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, verið kallaður til en fulltrúar launafólks eru víðs fjarri. Þetta er til marks um rörsýn fjármálaráðherra í efnahagsmálum, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.

Við krefjumst þess að fjármálaráðherra boði fulltrúa launafólks að borðinu þegar í stað. Að öðrum kosti verða tillögur starfshópsins og vinna hans ómerk.

Drífa Snædal, forseti ASÍ
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM

 

Leita

Upp